Vatnstjón

Frá árinu 2000 hafa Þúsund Fjalir unnið markvisst að þróun og umbótum á viðbrögðum við vatnstjónum og í kjölfarið forvörnum þar af lútandi. Fannst okkur margar brotalamir að finna í viðbrögðum og eftirvinnslu slíkra mála, sem leiddi til þess að þurrktækni hluti fyrirtækisins var stofnaður. Það var, og er okkar trú, að til þess að ná sem bestum árangri í viðbrögðum, verðmætabjörgun, og uppbyggingu eftir tjón, þurfi faglega þekkingu á þeim byggingarhlutum sem algengastir eru í viðjum húseigna.

Höfum við innleitt margskonar nýjungar í tækjakosti undanfarin ár, sem og því hvernig þeim tækjum er beitt við íslenskar aðstæður. Rekum við neyðarþjónustu sem fyrirtæki, ríki og sveitarfélög hafa nýtt sér, en skjót viðbrögð við ólíkum vatnstjónum, geta ráðið miklu um kostnað við uppbyggingu.

Hér má sjá vatnstjón sem við sinntum

Afskerming

Í kringum tjónavinnu, sem er stærsti hluti þeirrar vinnu sem við vinnum, skapast þörf fyrir afmörkun vinnusvæðis. Þar sem slík vinna fer iðulega fram inni á heimilum eða í starfandi fyrirtækjum, þarf afskerming að vera vel frágengin og úr þolanlegum efnum. Það varð því snemma metnaður okkar að skapa okkur sérstöðu og tryggja að framkvæmdaryk og ónæði sem fylgir framkvæmdum yrði takmarkað. Í vinnu okkar notumst við þess vegna iðulega við plastveggja kerfi sem lokar af framkvæmdarsvæðið, auk þess sem við notumst við Hepa-lofthreinsikerfi þegar ryk er mikið. Við tökum einnig að okkur að skerma af svæði fyrir aðra aðila

Mygla

Við höfum verið í fararbroddi í allri umræðu um myglu síðustu 10 ár, þar sem vinna okkar við vatnstjón er tengd henni órjúfanlegum böndum. Komum við að mörg hundruð málum á ári hverju, þar sem okkur mætir mygla, ýmist á frumstigi eða fullmótuð. Viðbrögð okkar, sem að sjálfsögðu hafa verið í stöðugri endurskoðun síðustu ár, einkennast af fagmennsku og yfirvegun. Sökum víðtækrar reynslu á þessu sviði, höfum við reynt eftir fremsta megni að halda umræðunni og viðbrögðunum á raunverulegum og hófstilltum nótum. Þrátt fyrir að við gefum okkur ekki út fyrir að bregðast við slíkum málum, hefur verið leitað til okkar í síauknu mæli undanfarin ár, að við vonum vegna þess hvernig við nálgumst slík mál. Starfsmenn fyrirtækisins hafa sótt þau námskeið sem í boði eru hér á landi, auk þess sem þrír hafa kynnt sér hvernig þessum málum er háttað í Bandaríkjunum.
Gró eða spores á ensku, eru einskonar fræ sveppa. Myglusveppur myndast þegar skilyrði til ræktunar eru góð. Þar skiptir rakastig höfuðmáli. Hitastig hefur einnig áhrif á vöxt og vaxtarhraða. Þetta er misjafnt eftir tegundum myglusveppa en þumalputtareglan er að ca 48 klukkustundir líða frá því að kjöraðstæður myndast þar til gró hefur fest rætur, þó er þetta misjafnt eftir tegundum. Í þessum gróum geta verið eiturefni sem kallast mycotoxin. Ef fólk andar þessum gróum að sér í óeðlilegu magni geta komið fram einkenni sem valda óþægindum. Þetta er ekki algilt og til eru dæmi um að fólk hafi yfirgefið myglumenguð hús vegna veikinda, en önnur fjölskylda flutt inn í sama hús og ekki fundið nein einkenni. Sá sveppur sem er hvað skæðastur í þessu tilliti heitir stachybotrys en er jafnan kallaður svartmygla á ástkæra ylhýra málinu.