Þegar við heyrum orðið „myglusveppur“ fá sumir gæsahúð. Einhverjir af bitri reynslu en aðrir af hræðsluáróðri undanfarin ár. Þetta fyrirbæri hefur fylgt manninum lengi eða í það minnsta frá því hann fór að gera sig skiljanlegan.

Þannig hefur verið skrifað um þetta á hellaveggi og ískinnbækur. Þá hafa fundist myglugró og sveppamyndun í kirfilega einangruðum múmíum, langt undirsandi, inni í píramídum í miðri eyðimörk. Eflaust hafa einhverjir forfeður okkar orðið fyrir barðinu á myglusveppnum. Þess ber þó að geta að myglusveppurinn hefur einnig bjargað þúsundum ef ekki milljónum mannslífa þegar penicillín lyfið var fundið upp til höfuðs bakteríum eins og Syphilis og Streptococci.

Í þessum pistli er ekki ætlunin að hræða fólk eða tíunda einkenni eða útbrot af völdum myglusvepps. Hér mun ég tala af minni reynslu og kunnáttu við verkun á byggingarefni menguðu af myglusvepp og gegn myndun hans.

Um Myglusvepp

Gró eða spores á ensku, eru einskonar fræ sveppa. Myglusveppur myndast þegar skilyrði til ræktunar eru góð.  Þar skiptir rakastig höfuðmáli. Hitastig hefur einnig áhrif á vöxt og vaxtarhraða. Þetta er misjafnt eftir tegundum myglusveppa en þumalputtareglan er að ca 48 klukkustundir líða frá því að kjöraðstæður myndast þar til gró hefur fest rætur, þó er þetta misjafnt eftir tegundum.  Í þessum gróum geta verið eiturefni sem kallast mycotoxin.  Ef fólk andar þessum gróum að sér í óeðlilegu magni geta komið fram einkenni sem valda óþægindum.  Þetta er ekki algilt og til eru dæmi um að fólk hafi yfirgefið myglumenguð hús vegna veikinda, en önnur fjölskylda flutt inn í sama hús og ekki fundið nein einkenni. Sá sveppur sem er hvað skæðastur í þessu tilliti heitir stachybotrys en er jafnan kallaður svartmygla á ástkæra ylhýra málinu.

Greining

Við greiningu á myglusvepp er mikilvægt að nota sjón og lyktarskyn. Sumir þekkja sellulósalyktina sem myglusveppur gefur frá sér, í daglegu tali kölluð „fúkkalykt“. Ef þessi lykt er til staðar þá er gott að reyna rekja sig að því svæði þar sem hún er sterkust.  Þá kemur sjónin sterk inn. Er sýnileg myndun á myglu þar sem lyktin er mest?  Sú er ekki alltaf raunin. Ef svo er ekki skal rjúfa byggingarefnið til að sjá inn fyrir ytra byrðið. Ef um er að ræða spónaplötu eða gifsveggi er dósabor góður í slíkt og auðvelt að laga þau göt eftir á. Þegar flipinn eftir dósaborinn hrekkur út má vel sjá hvort platan er mygluð á bakhlið eða ekki. Ef ekki þá er gott ráð að stinga myndavélinni inn fyrir gatið, stilla á flass og taka nokkrar myndir.

Sýnatökur hafa ekki mikið upp á sig ef myglan er greinileg, nema þú hafir mikinn áhuga á sveppaflóru almennt. Sýnataka getur þó komið sér vel ef grunsemdir vakna um sýkt svæði en erfiðlega gengur oft að koma auga á myglu. Ef þú þarft að koma slíkum sýnum í ræktun bendi ég á Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri, ni.is. Guðríður er okkar fremsti fræðimaður á sviði myglu og sveppa almennt. Hún getur skorið úr um það hvort á ferðinni sé myglusveppur eða bara, eins og hún kemst sjálf að orði „heiðarlegur skítur“. Prófið að slá inn mygla eða mold á ensku í leitarvélar veraldarvefsins. Ég vara viðkvæma við sumum myndaniðurstöðum, en þar finnur maður gríðarlega mikið af upplýsingum um útlit og tegundir myglusveppa. Þannig er gott að átta sig á því hvernig svona mygla lítur út.

Svokölluð agntalning, þar sem gró eru talin í andrúmslofti, er því miður ekki marktæk, samkvæmt nýjustu rannsóknum ISIAQ. Þetta kom fram í erindi sem Dr. Anne Hyvärinen aðalrannsakandi við National Institute of Health and Welfare hélt á Grand Hótel 13. september s.l. Í þannig könnun er tæki látið soga loftið í rýminu í gegnum sérstaka síu og gróin í síunni síðan talin.

Viðbrögð

Það er lykilatriði að koma í veg fyrir þau skilyrði sem viðhalda sveppamynduninni. Ef þessi skilyrði eru ekki fjarlægð er sama hvernig þú þrífur mygluna, hún mun koma aftur! Þar gæti verið um að ræða utanaðkomandi leka gegnum þak eða veggi, lekar lagnir, slaga í veggjum eða gluggum svo eitthvað sé nefnt.

Það á við um myglusvepp eins og annað í lífinu að „ef þið bregðist við af ótta þá fáið þið sömu viðbrögð til baka“. Snarpar hreyfingar í kringum sýkt svæði geta valdið þeim viðbrögðum hjá sveppnum að hann blæs og úðar sveppagróum í allar áttir, jafnvel eykur vöxt sinn. Munið alltaf að „umgangast myglusvepp af virðingu“.  Þegar búið er að kortleggja það svæði sem er sýkt af myglu, er rétt að skerma það af. Munið að setja ykkur sjálf í fyrsta sæti. Persónuhlífar á fólk skilyrðislaust að nota í umgengni við myglusvepp. Verið viss um að rykgrímur nái að grípa sveppagróin, ekki allar grímur ná svo fínni kornastærð. Hanskar, einnota gallar, skóhlífar, hlífðargleraugu, iPad ofl.

Þegar skermun á svæðinu er lokið er rétt að mynda undirþrýsting í herberginu. Þetta má gera t.d með því að setja blásara eða viftu í opnanlegt fag, þannig að mengað loft fari út úr húsinu en ekki inn í ósýkt rými. Mengað loft blandast útiloftinu mjög hratt en munið að varast að loftið fari ekki inn um gluggann í næsta herbergi eða inn til nágrannans. Ef fólk er ekki öruggt um slíkt er hægt að fá leigð tæki sem halda eftir rykinu. Þar er um að ræða loftskiptitæki með Hepa filterum. Þessir filterar halda í sér kornastærð allt niður í 0.3-micron. Til samanburðar eru 1000 micron í einum millimetra. Þúsund Fjalir ehf eru brautryðjendur í notkun slíkra tækja hér á landi og hefur orðið mikil vakning í eyðingu framkvæmdaryks úr andrúmsloftinu eftir að þeir fluttu inn þessi tæki.

Menguðu byggingarefni þarf að farga í SORPU. Varist að bera byggingarefnið í gegnum íbúðina án þess að pakka því vel inn í plast. Vissulega hefur myglusveppurinn úðað gróum um allt hús ef vandamálið hefur verið viðloðandi lengi, en það er óþarfi að bæta í. Ef sveppur hefur verið í timbri er um óafturkræfar skemmdir að ræða. Fjarlægja verður helst allt sem sveppurinn hefur læst sig í. Þó er steinsteypan með betri vörn gegn myglunni en mörg önnur byggingarefni. Í þeim tilfellum þar sem steinsteypan hefur verið sýkt er gott að fara með slípirokk yfir flötinn.

Eftir margra ára reynslu í vatnstjónum hef ég tekið eftir að gifsplöturnar eru besti vinur myglusveppsins. Á plötunum er pappi sem er kjörlendi sveppa. Þá gildir einu hvort um er að ræða gifsplötur fyrir votrými eða venjulegar gifsplötur. Við bendum fólki frekar á múrhleðsluveggi í votrýmum eða veggi byggða úr blikkstoðum klæddar múrhúðuðum veggeiningum, svo eitthvað sé nefnt.

Mygla í gluggum, veggjum og lofti

Margir þekkja mygluhreiður í gluggum. Oft tengist þetta miklum slaga á gleri, stundum svo miklum að pollar myndast í gluggakistum. Í mörgum tilfellum er um að ræða einfalt gler eða illa einangrað gler. Þó þekkja margir þetta vandamál í nýjum húsum einnig, þar sem einangrunargler er í fínu lagi.  Ég mæli alltaf með því að fólk stöðvi upptökin og komi í veg fyrir rakamyndun áður en reynt er að eyða myglunni. Þar sem um ræðir einfalt eða lélegt gler mæli ég með endurnýjun.  Þar sem ekkert er að glerinu og einangrun þess er í lagi þarf að huga að ýmsu.  Stundum er fólk að þurrka föt innandyra eða þurrkarinn er óþéttur. Sumir verða aðeins varir við þetta á kvöldin, þá eru kannski allir búnir að fara í sturtu/bað, búið er að sjóða kartöflur og svið, uppþvottavélin opnuð með tilheyrandi uppgufun osfv.  Flest þetta er hægt að lagfæra með því að lofta út.  Ég hef komið í aðstæður þar sem parketflekinn á stofugólfinu lyftist um nokkra sentímetra. Þegar ég ræddi við fólkið var ljóst að þau opnuðu aldrei glugga. Döggin grenjaði á flestum gluggum. Þetta var í nýlegu húsi þar sem allt var í fínu lagi í öðrum íbúðum hússins. Á gluggunum var hægt að hafa smá rifu en jafnframt hægt að læsa þeim í þeirri stöðu. Ég bað fólkið að hafa þessa rifu á öllum gluggum en hækka örlítið á ofnum til móts við það, svo ekki kólnaði í íbúðinni.  Þegar ég kom viku seinna var döggin farin af gluggunum og parketið hjaðnað í eðlilega stöðu.

Stundum eru málin flóknari en þetta. Ég hef séð mygluhreiður uppi í hornum þar sem veggir og loft mætast við útveggi. Þar er um að ræða kuldabrýr. Orðið kuldabrú er notað yfir steinsteypta veggi þar sem engin einangrun er til þess að stöðva kuldaleiðni inn í húsin, steinninn myndar brú fyrir kuldann að utan og inn í húsið. Þegar rakastig er hátt innandyra og kalt er úti ná slíkir veggir daggarmarki innandyra, þá myndast dögg á veggnum. Sá raki er kjörinn fyrir myglusveppinn að viðhalda og dreifa sér.  Í þessum tilfellum getur verið um mjög flóknar aðgerðir að ræða, ef stöðva á slíka myglumyndun til frambúðar. Þar getur verið um að ræða hönnunargalla byggingar, handvömm við framkvæmd osfv.  Það getur verið kostnaðarsamt að vinda ofan af slíkum gjörningum.

Þar sem um er að ræða slík svæði þ.e. minniháttar myglubletti er gott að leggja límband, bókaplast eða blauta tusku yfir flötinn og strjúka af áður en þið byrjið að skrúbba. Límið eða tuskan  grípur mikið af gróunum í stað þess að dreifa þeim um allt. Munið persónuhlífar!

Er hægt að drepa myglusveppinn?

Það er ótrúlegt hvað myglusveppir eru lífseigir. Eins og ég kom inn á getur myglan tekið sig upp ef ekki tekst að rjúfa kjörskilyrði.  Fyrst þegar ég fór að berjast við mygluna var enginn sem gaf ráð eða vissi hvernig ætti að eyða henni.  Margir þóttust vita, en margt af því hefur verið hrakið síðan.  Klór var eitthvað sem ég notaði fyrst, en þá komu fram fræðingar sem sögðu klórinn geta virkað öfugt á sumar tegundir og þær farið í vörn með því að fjölga sér enn frekar.  Þá skrúbbuðum við svæðið með Kraftvask frá jötun.no og úðuðum svo Sopp-Algerdreper yfir svæðið og leyfðum því að þorna á fletinum. Þessi efni hafa fengist í Húsasmiðjunni.  Við höfum í seinni tíð notað sótthreinsiefnið Oxivir frá Tandur. Oxivir drepur bakteríur, vírusa, myglusveppi og bakteríuspora.  Oxivir er það efni sem við höfum mest notað á fleti sem ekki verða fjarlægðir úr byggingum vegna myglu.  Ég bendi fólki á að lesa vel leiðbeiningar áður en notkun hefst. Sum þeirra geta mattað glansfleti ofl.

Þessi efni eru þó ekki gulltrygging fyrir endanlegum árangri. Mikill hiti eða hreinlega opinn eldur virðist það eina sem gulltryggir tortímingu myglusveppsins. Það hefur lengi verið vitað að mikill hiti gengur hvað næst myglusveppnum og nú er hægt að kaupa tæki sem er í laginu eins og ryksuga en á hausnum framan á barkanum er moppa. Í stað þess að mynda sog kemur 160°c heit gufa frá tækinu gegnum barkann, moppan hitnar og þú nuddar svæðið með henni. Engin efni eru notuð eingöngu hreint vatn.  Þessi aðferð gæti nýst t.d þegar steinsteyptir fletir eru meðhöndlaðir. Þessi aðferð er sögð ein sú skilvirkasta gegn myglusvepp í dag.

Vonandi hefur þetta varpað einhverju ljósi á baráttuna gegn myglusveppnum frekar en að vekja upp fleiri spurningar. Fyrst og fremst vil ég benda fólki á að kalla til kunnáttufólk í þessum efnum, sérstaklega ef þið treystið ykkur ekki í framkvæmdir sjálf.  Ef spurningar hafa vaknað skal ég reyna að svara þeim eins og unnt er.  Við stöldrum ekki lengi við þetta en tökum fyrir eitthvað annað skemmtilegt í næsta pistli.